Það er ekkert einfalt í landi þar sem 70 tungumál eru töluð, fátækt er landlæg og fólk þarf að bíða klukkutímum saman til að mæta á boðaðan fund. En með guðs hjálp tekst það þó eins og hjónin Hinrik og Guðný og Jóhanna og Haraldur hafa kynnst í starfi sínu í Búrkína Fasó.
Búrkína Fasó er eitt fátækasta ríki veraldar. Það er í Vestur-Afríku og íbúar þess eru 21,5 milljónir og ólæsi er með því mesta sem gerist í heiminum. Landið var nýlenda Frakka en fékk sjálfstæði árið 1960. Franska var opinbert mál á nýlendutímanum, en eingöngu menntaðir íbúar tala hana og talið er að rúmlega 70 tungumál séu töluð í landinu.
ABC barnahjálp hefur rekið skólann Ecole ABC de Bobo í borginni Bobo-Dioulasso, næststærstu borg landsins, en þar býr nú um ein og hálf milljón íbúa. Frumkvöðlar í skólastarfinu eru hjónin Hinrik Þorsteinsson og Guðný Ragnhildur Jónasdóttir, sem stofnuðu skólann árið 2008 og hafa lyft grettistaki með starfi sínu, en núna hafa þau ákveðið að láta öðrum eftir stjórnina á skólanum og eru það hjónin Jóhanna Sólrún Norðfjörð og Haraldur Pálsson sem hafa tekið við kyndlinum, en þau hafa komið að starfinu með ýmsum hætti síðastliðin átta ár.
Upphafið
„Ég man eftir því í æsku þegar Ólafur Ólafsson kristniboði sýndi okkur krökkunum myndir af börnum í Afríku og lífinu þar, sem vakti strax áhuga minn þegar ég var átta ára,“ segir Guðný þótt aldrei hafi hún búist við því þá að Afríka yrði heimili hennar um margra ára skeið. Þegar Hinrik fór til náms í Bretlandi kynntist hann nokkrum nemendum frá Búrkína Fasó og tókst með þeim vinátta. Þegar Guðrún Margrét Pálsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri ABC barnahjálpar, hringir í Hinrik árið 2007 og spyr hvort þau Guðný vilji ekki stofna ABC-skóla í Búrkína Fasó ákváðu þau að slá til. Guðrún hafði séð að sárlega vantaði skóla, en 70% ólæsi var í landinu. Félagið Atorka Group sem var í blóma rétt fyrir kreppuna vildi styrkja verkefnið um 15 milljónir en svo skall kreppan á og Guðný og Hinrik enduðu með fimm milljónir til að stofna skóla. „Þarna var ég rétt að fara að ljúka 40 ára starfi sem kennari og skólastjóri hér heima og það hafði alltaf blundað í mér að hjálpa börnum og konum. Við ákváðum að hlýða kallinu og vorum komin út eftir nokkra mánuði,“ segir Guðný.
Út í óvissuna
Þau fóru með tveimur vinum út, íslenskri stúlku og vini þeirra frá Brasilíu sem ætluðu að hjálpa þeim. Það endaði með því að Hinriki og Guðnýju tókst hið ómögulega að stofna skólann í september 2008, algjörlega mállaus, á þremur vikum, fyrir lítið fé. Vinir þeirra áttu hálfkláraða skólabyggingu sem þau gátu fengið með því skilyrði að þau lykju við bygginguna, en hún var á akri rétt fyrir utan Quenzenville-fátækrahverfið í borginni. „Við höfðum alltaf ætlað okkur að hafa skólann þar sem fátækustu börnin gætu stundað nám,“ segir Guðný og Hinrik bætir við: „Við vildum gefa þeim von, sem höfðu enga von.“
Þegar undirbúningur við stofnun skólans stóð sem hæst dó móðir vinar þeirra hjóna, fullorðin kona. Hinrik hafði verið í guðfræði í Englandi og hann var beðinn um að jarða hana. Allt umstangið í kringum jarðarförina tók viku og fólk var orðið mjög óþolinmótt þegar aðeins tíu dagar voru til stefnu til að koma skólanum af stað. „Hinrik og Eli vinur hans höfðu samband við opinberar stofnanir og þeir gátu útvegað tvo kennara, matreiðslukonu og menn til að lagfæra húsið, þakið, glugga og hurðir,“ segir Guðný. Þá var eftir að smíða stóla, bekki og borð, kaupa diska, potta og pönnur og fleira fyrir skólann. Það var unnið dag og nótt. Síðan var farið með innfæddum á milli kofanna til að bjóða börnum skólavist.
Með Guðs hjálp
Eftir níu daga var allt tilbúið og skólasetning var haldin og 98 börn voru skráð i skólann. Hinrik hélt ræðu við skólasetninguna þar sem hann sagði að með Guðs hjálp myndu þau hafa besta skólann í Búrkína Fasó, bestu kennara og ekki síst besta foreldrafélagið. Svo hvatti hann hópinn að standa saman eins og ein fjölskylda og byggja upp eitthvað sem Guð gæti verið stoltur af. Ræðan hafði mikil áhrif á börnin og ekki síður foreldrana, sem hafa alveg frá upphafi verið mjög virk í starfinu. „Við hjónin keyptum sjálf land sem foreldrarnir tóku að sér og fóru að rækta mat og í dag er verið að gefa 1.100 börnum að borða á dag.
Land biðanna
ABC-skólinn var í þessu húsnæði í tvö ár þar til þau fengu land gefins frá ríkinu til að hafa undir skólann og byggja á og var það skjalfest og undirskrifað af borgarstjóranum. „Þá fer allt í einu hverfisborgarstjórinn að vinna gegn okkur og segir að við séum að taka land sem við eigum ekki. Hann boðar okkur til fundar, en lætur ekki sjá sig og svo kom í ljós að hann var farinn með vinnuvélar á landið til að byggja þar sjálfur. Svona gekk þetta í nokkra daga og við biðum tímunum saman á þessari skrifstofu, en Búrkína Fasó er land biðanna. Það fer alveg ótrúlegur tími í það að bíða eftir öllu,“ segir Hinrik.
„En loksins hleypir hann okkur inn og gjörsamlega hellir sér yfir mig og kallar mig öllum illum nöfnum í lengri tíma. Við vorum með túlk og ég passaði mig að halda rónni. Þegar hann loksins þagnaði þakkaði ég honum fyrir að vera svona opinskár við mig. Svo sýndi ég honum skjalið þar sem segir að við eigum þetta land og bæti við að ef það gildi ekki þá sé greinilega ekkert að marka fólk í Búrkína Fasó,“ segir Hinrik en bætir við að málið hafi leyst farsællega, enda lá orðspor þjóðarinnar undir. Það endaði með því að hverfisborgarstjórinn byggði grunninn að nýja skólanum. „Þar byggðum við fallegt skólahús með sex kennslustofum og fengum styrk frá Bandaríkjunum til að byggja vegg utan um lóðina.“
Skólinn hefur vaxið og dafnað
Það voru fleiri slagir sem þurfti að taka við kerfið og tungumálið gat verið þrándur í götu, en flestir í borginni tala djoula á svæðinu. ABC-skólinn hefur þó vaxið og dafnað hjá Hinriki og Guðnýju. Mikil ásókn er í skólann og eru bæði kennd bókleg fög og líka verkleg fög eins og saumakennsla og bifvélavirkjun, þegar nógu mikil aðsókn er og einnig eru allir skólabúningar saumaðir í skólanum.
„Við förum eftir námskránni í Búrkína Fasó, en við höfum bætt við meiri enskukennslu, íþróttum og tónlist. Við höldum íþróttakeppnir og erum með sönghópa og svo kennum við líka á tölvur, sem er ekki algengt þarna,“ segir Hinrik. En þá vaknar spurningin hvort rafmagn sé í skólanum. „Það var ekkert rafmagn á svæðinu svo við fórum út í það að byggja okkar eigið kerfi og erum með yfir 100 sólarsellur á þaki íþrótta- og tónlistarhússins, en það kerfi var styrkt af íslenska ríkinu og varð þá algjör bylting í skólanum. Þá gátum við sett upp tölvurnar, skrifstofuna og fleira.“
Léttir undir með fjölskyldunum
Nemendur skólans eru fátæk börn sem búa í fátækrahverfinu Quenzenville í útjaðri borgarinnar. Aðeins örfá börn úr hverfinu ganga í skóla og því er reynt að dreifa hjálpinni meðal fólksins eins og frekast er unnt með því að gefa einu barni úr hverri fjölskyldu tækifæri til að ganga í skólann. Fulltrúar foreldrafélagsins benda á fátækustu fjölskyldurnar í hverfinu sem hafa mesta þörf fyrir hjálp. Hjálpin er ekki aðeins fólgin í menntun barnanna heldur léttir það undir með fjölskyldunum að börnin sem fá að ganga í skóla fá einnig ókeypis mat og læknishjálp í skólanum.
Heimili barnanna eru yfirleitt pínulitlir leirkofar, þar sem aðeins eru eitt til tvö rými og margir í heimili. Eldað er á hlóðum úti og salernið er hola fyrir utan kofann. Aðeins örfáir hafa rafmagn og þurfa margir að ganga langan veg eftir vatni. Flestir foreldrarnir eru án atvinnu, en reyna oftast að rækta örlítið fyrir utan heimili sín, sem er þá aðeins á regntímanum.
Guðný og Hinrik hafa búið meira og minna í Búrkína Fasó frá því að þau stofnuðu skólann 2008. „Við höfum verið ótrúlega heppin með starfsfólk, fólk sem er að vinna af hugsjón. Hjá okkur fá þau alltaf launin sín og fá mat í hádeginu, en í sumum ríkisskólum landsins koma launin bara eftir dúk og disk. Það er líka svo mikil vinátta í skólanum og mikið hlegið og góð samstaða. Þetta er ekki bara skóli, heldur ein stór fjölskylda,“ segir Hinrik.
Fjarlægur draumur
„Það er köllun að sinna þessu starfi,“ segir Jóhanna Sólrún Norðfjörð, sem fór í fyrsta skipti til Búrkína Fasó í tengslum við Biblíuskóla á Íslandi í janúar árið 2015. „Ferðin var hluti af náminu, en ég vildi ekki fara ein í þessa ferð, svo það endaði með því að við fórum bæði hjónin saman, þótt eiginmaðurinn hafi verið tregur til þess í fyrstu.“ Hún segir að alveg frá því að hún muni eftir sér hafi hún átt sér þann draum að fá að taka þátt í kristniboði og hjálparstarfi í Afríku.
„Í áratugi fannst mér þetta bara vera fjarlægur draumur, en þarna gafst tækifærið. Við kynntumst þarna Guðnýju og Hinriki og tókum þátt í starfinu sem var í gangi á þeim tíma og fórum í alls konar framkvæmdir ásamt hópnum sem var með okkur. Það var mikið af byggingum sem þurfti að dytta að og við brettum upp ermarnar og gerðum það sem við gátum. Eftir þessa ferð sá maðurinn minn hvað það er margt hægt að gera til að bæta ástandið í þessu fátæka landi og hvað það er mikið sem við getum lagt af mörkum. Þá varð ekki aftur snúið,“ segir Jóhanna.
Allt að skrælna í átta mánuði
Í Búrkína Fasó er hitabeltisloftslag og aðeins tvær árstíðir. „Ég sá þörfina á því að hafa reglulegan aðgang að vatni árið um kring. Rigningatímabilið í Búrkína Fasó er bara einu sinni á ári og svo skrælnar allt þess á milli og þá á fólk í erfiðleikum með að rækta grænmeti og þar með að brauðfæða fjölskylduna,“ segir Haraldur Pálsson, eiginmaður Jóhönnu.
Hjónin hafa rekið pípulagningafyrirtækið Áveituna á Akureyri í 26 ár og Haraldur sá strax að reynsla hans, m.a. í pípulögnum, gæti nýst vel. Strax um haustið sama ár fór Haraldur aftur til Búrkína Fasó og fór að leggja grunn að þessari hugmynd um að dæla upp vatni og leggja áveitulagnir ásamt því að koma vatni sem víðast að á skólalóðinni. „Það virtist vera frekar stutt niður á grunnvatn þarna svo ég sá að það væri góður möguleiki að ná í vatn og koma því að ræktunarsvæðin. Vatn er grunnurinn að öllu lífi og einnig nauðsynlegt varðandi allt hreinlæti.“
Haraldur fylltist eldmóði fyrir verkefninu og frá þessari fyrstu ferð í febrúar árið 2015 er hann núna búinn að fara átta sinnum til Búrkína Fasó og ferðirnar eiga eftir að verða fleiri, því þau hjónin hafa tekið við stjórn skólans af Hinriki og Guðnýju.
Vatnsveituverkefnið
„Landið er auðugt af vatni, það er þarna skammt undir yfirborðinu en það skorti á þekkingu til að sækja það og heimamenn höfðu heldur ekki tækni né fjármagn til þess. Fyrir sex árum hófumst við handa við að leggja áveitu- og neysluvatnslagnir og skapa þannig betri hreinlætisaðstöðu fyrir skólabörn og tækifæri til að koma upp ræktunarlandi sem gefur af sér allt árið,“ segja þau Jóhanna og Haraldur.
Haraldur segir að vatnsveituverkefnið skipti mjög miklu málið fyrir samfélagið, enda þætti mörgum Íslendingnum furðulegt að hafa ekki aðgang að vatni svo mánuðum skipti. „Það breytir öllu varðandi skólastarfið, bæði varðandi hreinlæti og ræktun á mat og að geta haft aðgang að vatni alla daga og allan sólarhringinn. Fyrir fjölskyldurnar sem eru í kring og eiga börnin er þetta bylting. Það eru yfir þúsund börn í skólanum og í hverri fjölskyldu eru kannski fimm, sex og upp í tíu aðilar þannig að verkefnið er að hjálpa til við að metta alveg sjö til tíu þúsund manns.“
Blómlegt ræktun
Foreldrafélag ABC-skólans hefur aðgang að ræktarlandinu, sem er kallað Lífland og er skammt frá skólabyggingunni. Foreldrarnir sjá alfarið um ræktunina á landinu, en auk þess er þar stunduð svína- og hænsnarækt. „Það sem ræktað er þarna árið um kring er mikil búbót fyrir skólann og er þetta allt til þess að það þarf að kaupa minna af mat, sem er þó enn mikið magn,“ segir Jóhanna og bætir við að tvisvar á ári séu matargjafir til fjölskyldna barnanna og koma þær til vegna gjafa annars staðar frá. Vegna vatnsveituverkefnisins er Lífland blómlegt ræktunarsvæði í dag og þar er líka rekið stúlknaheimili þar sem rúm er fyrir 18 stúlkur, en eins og er búa þar níu stúlkur með forstöðukonu sem heldur utan um starfið.
Árið 2021 fékk Áveitan ehf. styrk úr Heimsmarkmiðasjóði utanríkisráðuneytisins til að byggja upp ræktarland í ætt við Lífland til að rækta landbúnaðarafurðir, fjölga störfum og bæta lífskjör heimamanna, þar sem hægt er að ná nokkrum uppskerum yfir árið. Áður hafði foreldrafélag skólans haft aðgang að þessu landi til þess að rækta maís yfir regntímann. Haraldur fékk með sér þá Jón Sverri Friðriksson og Guðjón Norðfjörð auk Hinriks Þorsteinssonar til að setja verkefnið, sem fékk nafnið Gósenland, af stað. Nú er búið að byggja varnarvegg kringum landið, bora eftir vatni, koma fyrir dælum og reisa vatnsturna á svæðinu. Rafmagnið er fengið úr sólarsellum sem tengjast vatnsdælunum til að tryggja bæði rafmagn og sjálfbærni áveitunnar og ræktunin er komin á fullt.
Haraldur segir að mikilvægt sé að miðla þekkingu sinni til heimamanna. „Og ekki er minna dýrmætt að fá að taka við þeirra þekkingu og vinna hlutina saman. Við lærum hvert af öðru og þannig verður útkoman best,“ segir hann.
Þrekvirki forveranna
„Við erum að taka við mjög góðu búi frá Guðnýju og Hinriki, en starf þeirra í Búrkína Fasó er ekkert minna en þrekvirki og gríðarleg vinna sem þau hafa unnið í að búa til þetta góða tengslanet sem við höfum á staðnum. Þegar Jóhanna er spurð hvort fólk hafi ekki hváð uppi á Íslandi yfir að þau hjónin væru að fara til Búrkína Fasó til að vinna meðan aðrir fari til Kanaríeyja að baka sig í sólinni, hlær hún við og segir að þeir sem þekki þau hafi nú ekkert orðið hissa á því. Hún segir að frekar hafi þau hjónin fundið mikinn stuðning í fjölskyldunni á Íslandi og áhuga á verkefninu. „Börnin okkar hafa til dæmis komið hingað út og verið að hjálpa til og það er alveg ómetanlegt og börnin okkar eru stuðningsaðilar nokkurra barna í skólanum hjá okkur.“
Handapat og bros
Eftir ferðina þeirra til Búrkína Fasó í janúar á þessu ári ræddu hjónin saman og sáu að líklega væri meira starf fram undan hjá þeim í Búrkína Fasó. „Þegar Hinrik og Gullý kölluðu okkur á fund og spurðu hvort við vildum taka við starfinu af þeim, þá vorum við tilbúin.“ Hún segir Hinrik og Guðnýju hafi tengt þau hópnum sem þau hafa verið að vinna með, en þau hafa verið í Búrkína Fasó stóran hluta úr árinu og þekkja svæðið og menninguna betur en flestir.
Það er ekki sami hraðinn í Búrkína Fasó og á Íslandi. „Þegar við komum á staðinn, þá gírum við okkur niður og förum á þeirra hraða,“ segir Jóhanna og hlær. Svo tekur allt lengri tíma út af tungumálinu, en talið er að rúmlega 70 tungumál séu töluð í landinu. „Það er kannski einn í hópnum sem talar ágæta ensku, en svo ef allt þrýtur þá er bara notað handapat og bros. Og það fleytir okkur langt,“ segir hún. „Þrátt fyrir þessa miklu fátækt er fólkið mjög lífsglatt og brosmilt, sem gerir allt samstarf miklu auðveldara. Við erum líka að læra af þeim og njóta augnabliksins.“
Miðla þekkingunni
„Við sjáum hvað það skiptir miklu máli að hafa aðgang að vatni og það hefur aukið mataröryggi fólksins þegar þau geta ræktað matvæli allt árið,“ segja þau Jóhanna og Haraldur. Heimamenn hafa aðgang að landinu og þau komi með þekkinguna og miðli henni áfram. Það er gaman að segja frá því að pípari sem er heimamaður og Haraldur hefur leiðbeint hefur í dag nóg að gera og starfar sem verktaki. Rafvirki á svæðinu hefur verið mjög áhugasamur og drekkur í sig alla þekkingu og nýjungar. „Okkur er mikið í mun að skilja þekkinguna eftir í landinu. Um það snýst málið að stórum hluta, að heimamenn geti séð sér og sínum farborða í erfiðu landi.
„Skólinn breytti lífi mínu“
Kadi og Chantal starfa í Ecole ABC de Bobo og eru báðar frá Búrkína Fasó. Kadi, sem hefur unnið við skólann frá árinu 2009, er framkvæmdastjóri skólans og sér um allan daglegan rekstur og hefur yfirumsjón með starfinu. Chantal vinnur á skrifstofunni, en hún hóf störf árið 2017. „Ég get sagt að skólinn hafi breytt lífi mínu,“ segir Kadi og segir að reynslan sem hún hafi hlotið þessi ár sé ómetanleg. „Það er líka yndislegt að vinna með börnunum og sjá hvað líf barnanna batnar eftir að þau byrja í skólanum.“ Alla virka daga er kominn hópur fólks fyrir framan skrifstofuna áður en opnað er. Börnin og foreldrarnir leita mikið til þeirra á skrifstofunni. „Ég hef uppgötvað hvað það er gaman að vinna með börnum í þessu starfi,“ segir Chantal og bætir við að í gegnum starfið kynnist hún fjölskyldum og aðstæðum barnanna mjög vel. „Það er mikið öryggi fyrir fjölskylduna að hafa barn hér í skólanum sem fær máltíð á hverjum degi og er oft fyrst í fjölskyldunni til að fara í skóla.“