„Unnið hefur verið þrekvirki í litla þorpinu Rackoko í norðurhlouta Úganda þar sem ABC barnahjálp rekur skóla með heilsugæslu, kvennadeild, skurðastofu og ný malaríudeild opnar í nóvember. Næst stendur til að bjóða upp á tveggja ára nám í heilbrigðisgreinum.“
„Við erum búin að vera með skóla í Norður-Úganda í 30 ár, þar sem Íslendingar hafa styrkt börn til náms. Þessi skólalóð sem við erum að nota í Rackoko í Pader héraði var upphaflega flóttamannabúðir þar sem mest voru munaðarlaus börn sem bjuggu þarna eftir stríðið í Úganda,“ segir Laufey Birgisdóttir verkefnastjóri hjá ABC barnahjálp og fyrrverandi framkvæmdastjóri.
Afar erfiðar aðstæður hafa verið í norðurhluta Úganda sem setur svip sinn á allt svæðið. Frá 1986-2008 geysaði stríð milli uppreisnarmannanna LRA (Lord’s Resistance Army) og stjórnvalda og nærri 90% hermanna uppreisnarmanna voru börn sem höfðu verið tekin frá foreldrunum og neydd til að berjast. Til að sporna við að börn væru tekin í hermennsku fyrirskipuðu stjórnvöld að íbúarnir flyttu í flóttamannabúðir sem reistar voru á landinu. Aðeins moldarvegir eru í héraðinu og afar litlir atvinnumöguleikar og einu möguleikarnir til lífsviðurværis er að rækta matvæli. Saga héraðsins er mörkuð af áföllum.
Samstarfsfólk í 30 ár
Það er í rauninni stórmerkilegt að ABC hafi getað haldið úti skólastarfi í Úganda í 30 ár. „Já, það má segja það. Alveg frá upphafi höfum við starfað með sama fólkinu, Trudy og Francis Odia. Trudy kom til Úganda sem nunna frá Ástralíu, en giftist svo Francis sem er frá Úganda, en er nú látinn. Hún er ennþá í stjórninni en er að nálgast áttrætt núna. Hún hefur verið í þessu starfi alveg frá upphafi og er alveg mögnuð kona,“ segir Laufey.
Þegar Trudy kom til Rackoko fyrir þrjátíu árum var hún mest að vinna með barnunga hermenn úr stríðinu. Hún sinnti mest í sáluhjálp og var með lítinn skóla. Við byrjuðum að starfa með henni þarna fyrir norðan og smám saman kaupum við land og fórum að byggja skóla og síðan leikskóla. Landið sem að ABC Úganda á í dag er nokkuð stórt. Svæðið er girt af með múrvegg og svo er járnhlið til að komast inn á lóðina, bæði til að halda fólki frá og dýrum. „Það er eru mikil verðmæti í skólanum, bæði matur og síðan tölvur og það þarf að hafa vaktmann allan sólarhringinn.“
Ófrísk kona gengur ekki 70 km
„Árið 2018 kom mikill stormur sem tók af þakið eins og það lagði sig af tveimur byggingum á skólalóðinni sem voru þá heilsugæsla og skrifstofa skólans. Eftir það var þessi bygging ekkert notuð, því það var ekkert þak og allir gluggar brotnir og illa farnir. Þannig var ástandið þegar ég kom þarna í mars 2022.“
Laufey og Samúel Ingimarsson, stjórnarformaður ABC barnahjálpar fóru í eftirlitsferð til að skoða skólana, fara yfir bókhaldið og þá voru heimamenn að sýna þeim þessar byggingar sem stóðu þarna ennþá, þaklausar og illa farnar. „Þá komu þorpshöfðingjarnir til okkar og skólastarfsfólkið og spurðu hvort það væri einhver möguleiki að við gætum komið upp heilsugæslu aftur í þessu húsnæði fyrir þorpið og héraðið.
Mjög há dánartíðni
Þá var haldinn fundur um heilsugæslumál og á honum kom fram að það væri mjög há dánartíðni meðal kvenna. Á þeim tíma var ljósmóðir í þorpinu sem var búin að taka á móti börnum þarna í fjörutíu ár. Hún sagði að ef einhver vandkvæði væru í fæðingunni, eins og ef barnið snéri vitlaust eða annað sem þarfnaðist lækniskunnáttu, þá væru allar líkur á því að móðirin deyji og oft barnið líka, því það er enga hjálp að fá og 70 kílómetrar í næstu heilsugæslu. Ófrísk kona í fæðingu getur ekki gengið 70 km eða setið aftan á reiðhjóli til að fá aðstoð svo staðan er mjög erfið.“
Allir vildu leggja sitt af mörkum
Laufey segir að þarna var tekin ákvörðun um að samtökin myndu reyna að stofna þennan spítala og hafa sérstaka fæðingardeild og þau sóttu um fjármagn til þess sem þau fengu frá utanríkisráðuneytinu. Það var strax hafist handa og byrjað að múra húsið og setja upp þak. Gerð hafði verið kostnaðaráætlun um að ný kvennadeild ásamt fæðingardeild auk skrifstofu myndu kosta 15 milljónir íslenskra króna. Þegar styrkur til þróunarsamvinnuverkefna frá utanríkisráðuneytinu upp á tólf milljónir barst í maí 2022 var kraftur settur í bygginguna og söfnun hafin fyrir því sem vantaði upp á.
„Margt fólk í þorpinu kom og hjálpaði til. Það vildu allir leggja sitt af mörkum, komu með mat og gerðu allt sem þau gátu. Þegar við vorum í Úganda í febrúar var mjög þungt hljóð í fólki því fólkið sá enga von með möguleika á heilsugæsluþjónustu, en þegar við komum aftur í ágúst var áþreifanlegt hvað mikil jákvæðni var í loftinu og fólk svo þakklátt og stolt af því að það væri komin heilsugæsla í þetta litla þorp.“
Uppsöfnuð þörf
Nýja kvenna- og fæðingardeildin var opnuð með pompi og prakt á skólalóðinni í Rackoko þann 2. ágúst 2022 og fylltist húsnæðið af fólki úr þorpinu og víðar að. Laufey segir að þingmaður kjördæmisins, sem býr í höfuðborginni Kampala sunnar í landinu, hafi heimsótt Rackoko á opnunardaginn og sagt að skurðstofan gæfi skurðstofum höfuðborgarinnar ekkert eftir. „Það var gífurleg stemmning þennan dag og þakklætið og gleðin geislaði af þorpsbúum.“
Fyrstu dagana sem deildin var opnuð var frítt að koma í skoðun og það fylltist allt og 320 sjúklingar skráðir inn. Þar af voru 20 barnshafandi konur sem voru á síðustu mánuðum meðgöngunnar sem fóru í sónar og fengu almenna skoðun á fæðingardeildinni. Það voru 104 sýni tekin þennan fyrsta dag hjá veiku fólki og þá kom í ljós að 70 þeirra voru með malaríu, 20 voru með HIV smit og einnig greindust aðrir sjúkdómar. Barnshafandi konur með malaríu og HIV smit fengu við eigandi meðferð, en Laufey segir að eitt ungabarn hafi verið orðið svo veikt af malaríu að það lifði það ekki af sem var skelfilegt að horfa upp á. Engin malaríulyf eru til fyrir börn undir fimm ára, en verið er að þróa slík lyf núna. „Það eina sem getur bjargað þeim er að fá blóðgjöf, en það var ekkert blóð til því það hafði ekki verið nein heilsugæsla. Þegar við fórum suður til Kampala var búið að skrá í 30 mismunandi aðgerðir við ýmsum kvillum sem læknarnir ætluðu að koma og framkvæma í þorpinu.“
Fæðingarstofan á heilsugæslunni.
Það er stundum þröngt á þingi á biðstofunni fyrir framan heilsugæsluna í Rackoko.Nemandi ABC einn læknanna
Heilsugæslan er opin alla daga vikunnar og þarf starfa menntað heilbrigðisstarfsfólk úr héraðinu. Þrír læknar frá höfuðborginni Kampala skiptast á að koma til að sinna aðgerðum og þá er búið að skipuleggja vaktirnar þannig að hægt sé að gera sem flestar aðgerðir þann daginn. Það er þó yfirleitt bara einn læknir hverju sinni á heilsugæslunni, en auk hans eru þrjár hjúkrunarkonur, sjúkraliði og starfsmaður á rannsóknarstofunni. Á skólalóðinni er einnig apótek og tannlæknaþjónusta og öll aðstaða ótrúlega góð miðað við almennt í héraðinu.
Það er sérstaklega ánægjulegt að nefna að einn af læknunum þremur er gamall nemandi ABC skólans í Úganda. „Wycliffe var í grunnskólanum og bjó á heimavistinni. Hann var bara tólf ára þegar hann ákvað að hann vildi verða læknir og hann lagði sig virkilega fram við að draumur hans gæti ræst. Eftir að ljúka grunnskóla og framhaldsskóla hjá ABC Úganda fékk hann styrk til að fara í læknanám,“ segir Laufey og bætir við það sé ótrúlega góð tilfinning að sjá og finna árangurinn af skólastarfinu skila sér svona vel til samfélagsins.
Wycliffe að sinna störfum á heilsugæslunni
Wycliffe talar við þorpsbúa, en vegna stuðnings ABC barnahjálpar gat hann orðið læknirMalaríudeild bætist við
Eins og kom berlega í ljós fyrsta daginn við opnun heilsugæslunnar er malaría landlæg í héraðinu og ljósmóðirin sagði Laufeyju að hún væri sérstaklega skæð barnshafandi konum og gerði meðgönguna bæði erfiða og afar hættulega. Næsti draumur þorpsbúa var að hægt væri að opna malaríudeild til þess að eiga blóðrannsóknartæki, ísskáp og blóðskimunartæki. „Við sóttum um styrki hjá Þróunarsamvinnunefnd til að opna malaríudeild við hliðina á kvennaspítalanum.“ Laufey segir að núna sé verið að bæta við húsnæðið og setja upp litla malaríudeild, sem tekur 12-14 rúm fyrir veika einstaklinga. Það er nóg fyrir svæðið, en það sem skipti langmestu máli er að fá tækjakostinn til að skima blóð, rannsaka það og geta geymt í kæli.“
Nám í heilbrigðisgreinum
Laufey segir að vinnan við deildina er langt komin og stefnt er að því að opna malaríuspítalann í nóvember. Það eru komnar sólarsellur á þakið fyrir rafmagn og framkvæmdir ganga vel.
Eins og áður hefur komið fram er atvinnulíf fremur fábreytt á svæðinu og mest unnið við ræktun matvæla eða við umönnunarstörf. En með tilkomu þessarar heilsugæslu er næsta hugmynd fyrir ABC skólann að bjóða upp á tveggja ára nám til að verða sjúkraliði, ljósmóðir, lyfjatæknir eða starfsmaður á rannsóknarstofu og það er þegar hafin skipulagning á því. „Það liggur beint við því við erum komin með heilsugæslu, kvennadeild, malaríudeild, rannsóknarstofu og litla tannlæknastofu á skólasvæðið, en það er saga að segja frá tilurð hennar.“
Alma opnar tannlæknastofu
Þegar Laufey kom frá Úganda í mars þurfti hún að fara til sjúkraþjálfara og hún fór að segja henni frá starfinu í Úganda. „Það endaði með að Alma sjúkraþjálfari kom með mér í ágúst, en það var algjörlega stórkostlegt að hafa hana með. Hún heillaði starfsfólkið alveg upp úr skónum og hún var með ýmsar teygjur, nálar og belti til að gefaá heilsugæsluna sem enginn hafði séð af starfsfólkinu. Þegar hún dró upp nálarnar var mikið hlegið og emjað þegar hún fór að meðhöndla heilbrigðisstarfsfólkið með nálarstungum. Þetta var alveg stórkostlegt.”
En Alma átti greinilega að fara til Úganda. Þegar hún sá fólk koma til að láta draga úr sér tennur leist henni ekkert á aðstæðurnar, né aðfarirnar. Einn hélt viðkomandi niðri og annar hélt höfðinu föstu og sá þriðji dró út tönnina með afli. Hún spurði því hvort ekki væri hægt að nota eitt herbergið fyrir litla tannlæknastofu og þegar þær Laufey voru búnar að kanna málið og finna tannlæknastól, sótthreinsibúnað, ljós og vagn fyrir rúmlega 230 þúsund krónur var slegið til og fjármagninu safnað á Facebook á þremur dögum. „Nú geta þorpsbúar fengið tannlæknaþjónustu og kallað er á tannlækni frá Gulu þegar nokkir þurfa þjónustuna.“
Góðar ömmur eru gulli betri
Þegar Laufey var ráðin sem framkvæmdastjóri ABC barnahjálpar árið 2017 hafði hún verið stuðningsaðili í mörg ár og líka verið sjálfboðaliði, svo hún þekkti vel til starfsins, en núna er hún verkefnastjóri hjá samtökunum. „Þetta var draumur minn frá æsku. Guðbjörg Jóndóttir, föðuramma mín, gaf mér guðstrúna, en hún var Fríkirkjukona í Hafnarfirði og hafði mikil áhrif á mig. Svo var það móðuramma mín, Laufey Jakobsdóttir, sem margir þekkja sem Laufeyju ömmu í Grjótaþorpinu, sem gaf mér trúna á fólk og hvað það væri mikilvægt að hjálpa öðrum og gefa af sér í lífinu. Þannig að alveg frá því að ég var barn hefur það blundað í mér að vilja vinna við svona starf. Það eru gríðarleg forréttindi og ábyrgð að fá að starfa við þetta.“
Hún segir líka að í sínu starfi hafi hún séð það sjálf hvað það er hægt að koma miklu til leiðar og hafa áhrif til góðs. Það sem okkur finnst kannski lítið, getur skipt sköpum í þessum heimshluta. Það er líka svo mikilvægt að geta fylgst með því í hvað peningarnir fara sem fólk gefur til starfsins. Mér verður oft hugsað til Laufeyjar ömmu og þess veganestis sem ég fékk hjá henni. Hún sagði að með því að vera góð við náungann og gera góðverk getum við gert heiminn örlítið betri.”