Árlegt söfnunarátak ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, hefst í næsta mánuði. Þetta verður í 22. skipti sem söfnunin fer fram en átakið gengur þannig fyrir sig að börn í hinum ýmsu grunnskólum landsins ganga í hús í sínu skólahverfi, tvö til fjögur börn saman, og safna peningum í merkta ABC bauka. Alla jafna eru það nemendur í 5. bekk sem taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og er það reynsla okkar að þau hafa mikinn áhuga á að hjálpa börnunum sem styrkt eru til náms í gegnum ABC barnahjálp.
Það er að sama skapi gaman fyrir þau að vita í hvað fjármununum sem þau söfnuðu var varið. Á síðasta ári söfnuðu börn úr um 70 grunnskólum 7.231.938krónum! Það er ekkert smáræði og má með sanni segja að sé stórkostlegur árangur! Þessir fjármunir skipta miklu máli fyrir börnin í ABC skólunum og eru þau og við afar þakklát fyrir hjálp íslenskra grunnskólabarna sem og grunnskólanna sjálfra sem hafa í öll þessi ár unnið með okkur.
Hér má sjá og lesa um í hvað fjármununum var varið:
Útbúið var íþróttasvæði við skólann í Búrkína Fasó. Nú er þar hand- og fótboltavöllur, sem og körfuboltavöllur.
Við skólann okkar í Úganda var byggð ný heimavist fyrir stúlkur og er hér mynd af framkvæmdunum. Auk þess var Miriam neyðarsjóðurinn stofnaður við skólann og er veitt fé úr honum þegar erfiðar aðstæður skapast hjá nemendum og fjölskyldum þeirra. Sjóðurinn hefur komið að miklu gagni þegar neyðin er mest.
Útbúið var leiksvæði við skólann á Indlandi og keypt stórskemmtileg leiktæki sem eru vel nýtt í öllum frímínútum! Sárlega vantaði tölvu, prentara og skanna á skrifstofu skólans og var það líka keypt.
Í Namelok í Kenýa voru lagðar nýjar vatnsleiðslur og börnin fengu nýja skólabúninga og skólabækur. Auk þess voru keyptar í þróttavörur og tæki.
Stofnaður var neyðarsjóður fyrir skólann í Pakistan og hefur hann þegar komið að miklu gagni.
Ný salernisaðstaða var búin til fyrir heimavist drengjanna í skólanum í Úganda.
Gámur var sendur frá Íslandi til Búrkína Fasó og var hann sneisafullur af íþróttavörum, trampólínum og skemmtilegu dóti. Á vinstri myndinni hér að ofan má sjá glitta í nýja handboltavöllinn fyrir aftan nemendurna.
Eins og sjá má munar heldur betur um þessa peninga sem þessir frábæru íslensku krakkar söfnuðu og erum við þeim hjartanlega þakklát!
Hér má sjá nánara uppgjör vegna söfnunarinnar árið 2018 – Uppgjör Börn hjálpa börnum 2018.