Árlega söfnun ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, hófst í Brekkuskóla á Akranesi þann 14. febrúar síðastliðinn.
Framkvæmdarstjóri ABC, Hjalti Skaale Glúmsson, hóf viðburðinn með kynningu um starfsemi samtakanna og fróðleiksfúsir nemendur hlustuðu vel og spurðu margra skemmtilegra spurninga. Nemendur Brekkuskóla og fjölda annarra grunnskóla á landinu munu svo ganga um nærliggjandi hverfi sín á komandi dögum og vikum og safna fyrir hönd ABC.
Esther Nanna, Sigrún Inga, Hektor Máni og Stígur Ágúst með söfnunarbauka ABC barnahjálpar. Ljósm. vaks
Hjalti Skaale Glúmmson ásamt nemenda Brekkuskóla
Söfnunin er haldin í 24. sinn og stendur yfir dagana 14. febrúar til 31. mars. Frá upphafi hafa nemendur grunnskóla landsins safnað um 143 milljónum króna til styrktar fátækum börnum í Afríku og Asíu og hefur söfnunin verið hreint ómetanleg fyrir starfsemi ABC barnahjálpar.
Fyrir peningana sem safnast hafa á undanförnum árum höfum við getað hjálpað mikið til og hefur meðal annars verið byggð ný skólabygging með tveimur fullbúnum kennslustofum í ABC skólanum í Kenýa. Ný heimavist var útbúin og nýtt eldhús byggt og lagðar nýjar vatnsleiðslur. Þar voru einnig endurnýjuð húsgögn, skólabúningar, skólatöskur ásamt íþróttavörum. Keypt var tölva ásamt tölvunámskeiði fyrir unglinga og ungfullorðna til að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði eftir skóla. Einnig var keypt myndavél svo hægt sé að taka betri myndir af nemendum og viðburðum sem þar eiga sér stað.
Einnig var hægt að hjálpa til við uppbyggingu á nýjum og glæsilegum matsal í ABC skólanum í Búrkína Fasó. Öryggisvegg í kringum skólann var hækkaður til að auka öryggi nemenda og starfsfólks og var peningur úr söfnuninni nýttur í það. Útbúið var íþróttasvæði við skólann svo nú er þar hand- og fótboltavöllur, sem og körfuboltavöllur.
Í Úganda styrkti söfnunin endurbyggingu á leikskóla ABC skólans þar sem þakið var lagað og byggður var nýr veggur. Við skólann var byggð ný heimavist en auk þess var Miriam neyðarsjóðurinn stofnaður við skólann og er veitt fé úr honum þegar erfiðar aðstæður skapast hjá nemendum og fjölskyldum þeirra. Sjóðurinn hefur komið að miklu gagni þegar neyðin er mest.
Á Indlandi var mikil þörf á viðhaldi á skólahúsnæði. Þar hjálpuðum við til með endurbætur á skólabyggingunni sem var öll máluð, lagaður var leki í þaki hússins og viðgerð á vatnsbrunni skólans. Sárlega vantaði tölvu, prentara og skanna á skrifstofu skólans og var það líka keypt.
Við gáfum starfinu í Filippseyjum nýja myndavél til að hægt sé að taka betri myndir af nemendum og viðburðum og í Pakistan var útbúið var leiksvæði við skólann og keypt stórskemmtileg leiktæki sem eru vel nýtt í öllum frímínútum. Einnig höfum við keypt reiknivélar og skriffæri fyrir nemendur skólanna.
Eins og sést á þessari yfirferð er þessi söfnun mjög mikilvæg fyrir skólana og erum bið börnunum alltaf jafn þakklát fyrir þeirra frábæra framlag.
Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning:
0515-14-110000. Kt. 690688-1589