Ákall um aðstoð við að kaupa matarpakka fyrir fjölskyldur okkar barna á tímum Covid-19
Heimsfaraldurinn sem nú geisar snertir allt mannkyn. Hvar sem borið er niður eru áhrifin víðtæk og misjafnt hvaða burði þjóðir hafa til að bregðast við ástandinu.
Sá hópur sem verður hvað verst úti eru þeir sem búa við viðvarandi skort, þar á meðal eru fjölskyldur barna sem eru í skólum á vegum ABC barnahjálpar í Afríku og Asíu, en skólum hefur víðast hvar verið lokað.
Við höfum þegar byrjað á nokkrum stöðum að setja saman matarpakka fyrir fjölskyldur barnanna okkar. Fyrstu matarpakkarnir voru afhentir í Kenýa og Pakistan í vikunni til þeirra fjölskyldna sem hafa það verst.
Þeir sem vilja leggja verkefninu lið og svara kallinu geta gert það með því að smella hér.
Einnig er hægt að leggja beint inná neyðarsjóð og merkja “Matarpakki”
Reikningsnúmer: 515-14-303000
Kennitala: 690688-1589
Söfnunarféð rennur óskipt til kaupa á matarpökkum fyrir fjölskyldur barnanna okkar.
Áhrif Covid -19 á starf ABC í Afríku og Asíu
Þar sem skólum hefur víða verið lokað þá hefur skólastarf ABC orðið fyrir miklu raski, einnig hefur heimavistum verið lokað. Það er erfitt að horfa á eftir börnunum okkar fara heim úr örygginu sem er á heimavistunum. Þar eru þau í hreinna og tryggara umhverfi en á eigin heimilum.
Á Filippseyjum hafa allir skólar verið lokaðir og samkomubann gildir í Manilla höfuðborg landsins. Starfsmenn ABC reyna eftir bestu getu að aðstoða fjölskyldur barna sinna þar með aðföngum frá svæðinu þrátt fyrir víðtæka sóttkví og lokanna fyrirtækja.
Öllum skólum hefur verið lokað í Bangladess en kennarar þar halda úti fjarkennslu þar sem því verður komið við, en aðgangur að neti er takmarkaður. Kennarar ABC hafa lagt sig fram við að kenna börnunum mikilvægi handþvottar og almenns hreinlætis. Það er mikil áskorun því aðgangur að hreinu vatni er ekki tryggt og því auknar líkur á að smit breiðist hratt út. Verð á nauðsynjavörum hefur farið hækkandi þar í landi og hætt við að börnin okkar sem koma frá fátækum og barnmörgum heimilum muni líða skort.
Sama staða er á Indlandi og í Pakistan.
Faraldurinn dreifist nú af fullum krafti um Afríku, en ABC barnahjálp rekur skóla í Kenýa, Úganda og Búrkína Fasó. Búast má við miklum hamförum í álfunni þar sem innviðir samfélagsins eru víðast hvar ótraustir og fátækt mikil. Í Kenýa hefur öllum skólum verið lokað og börnin okkar send heim. Fjölskyldur barnanna okkar í Afríku búa við sára fátækt og gríðarlegan skort á nauðsynjavörum og hreinu vatni. Víða er aðgengi að heilbrigðisþjónustu takmarkað eða lítið sem ekkert.
Börnin okkar og fjölskyldur þeirra tilheyra þeim hópi sem mun fara verst út úr þessum faraldri. Sjaldan hefur verið jafn brýn þörf fyrir aðstoð og núna.