fbpx

ABC í Kenýa

Haustið 2006 hóf ABC barnahjálp hjálparstarf í Naíróbí.

Haustið 2006 hóf ABC barnahjálp hjálparstarf í Naíróbí.

Haustið 2006 hóf ABC barnahjálp hjálparstarf í Naíróbí. Börnin sem njóta stuðnings eru 200 talsins og ganga þau öll í grunn- og framhaldsskóla en einnig eru nokkur sem njóta stuðnings til að stunda nám á háskólastigi. Þar af búa um 100 börn og unglingar á heimavist. Meirihluti heimavistarbarnanna eru fyrrverandi götubörn sem hafa náð undraverðum árangri frá fyrra líferni og stunda námið af kappi.

Sér í lagi má nefna frábæran árangur ljóðahópsins í skólanum en árlega tekur hann þátt í hljómlistarhátíð sem nefnist Kenya Music Festival. Árið 2016 komst hópurinn í úrslit en keppnin er á landsvísu og komast þarf í gegnum margar forkeppnir áður en keppt er til úrslita. Lokakeppninni er skipt í nokkra áfanga og sigraði hópurinn í einum þeirra með flutningi á frumsömdu ljóði.

Hjá ABC í Kenýa starfar samheldinn hópur frábærra starfsmanna og kennara sem sjá til þess að starfið gangi vel og að börnin njóti ástar og umhyggju og fái þá þjónustu sem þeim ber.

Skólaárið í Kenýa hefst í janúar. Hvert skólaár skiptist niður í þrjár annir og taka börnin próf eftir hverja önn: fyrsta önn er frá janúar til mars, önnur í maí til júlí og þriðja frá byrjun september fram í miðjan nóvember.

Leikskóladeild fyrir þriggja til fimm ára börn.

Grunnskóli fyrir 1. til 8. bekk. Í lok 8. bekkjar taka börnin samræmd próf.

Framhaldsskóli sem skiptist í Form 1 – Form 4 með lokaprófi sem gefur réttindi til að fara í háskóla.

Fátækar fjölskyldur geta sótt um skólavist fyrir börnin sín í ABC skólunum. Félagsráðgjafar og starfsfólk ABC ræða við foreldrana og taka skýrslur af börnunum. Oft eru fjölskyldurnar heimsóttar til að sannreyna að aðstæður séu slæmar. Þau börn sem búa við verstu aðstæðurnar eru tekin inn í stuðningsbarnakerfið.

Landið
Kenýa er land í Austur-Afríku með landamæri að Eþíópíu í norðri, Sómalíu í austri, Tansaníu í suðri, Úganda í vestri og Súdan í norðvestri og strönd við Indlandshaf. Höfuðborg landsins er Naíróbí. Miðbaugur liggur í gegnum norðurhluta þess. Landið er að miklu leyti hálent, en láglent við strendur. Höfuðborgin Naíróbí er í 1800 metra hæð. Kenýa er 580.000 ferkílómetrar að stærð.

Íbúar Kenýa eru um 55 milljónir og búa flestir þeirra í suðurhluta landsins í grennd við höfuðborgina Naíróbí og við landamæri Úganda við Viktoríuvatn. Þar eru góðar jarðir og nægileg úrkoma til að stunda akuryrkju. Flestir íbúar Kenýa eru smábændur sem stunda sjálfsþurftarbúskap eða hafa ofan af fyrir sér inna óopinbera geirans í borgunum en aðeins örfá prósenta íbúanna greiða skatt. 99 prósent af Kenýumönnum eru af mismunandi þjóðarbrotum blökkumanna og hafa flest þjóðarbrotin sitt eigið tungumál. Til að einfalda þann vanda hefur Svahílí verið gert að ríkismáli. Svahíli er bantúmál sem blandast hefur við smá arabísku og ensku. Kenýa var ensk nýlenda en varð sjálfstætt ríki 1963

Í Kenýa eru um 54 mismunandi þjóðir. Fyrsti forseti landsins var Jomo Kenyatta. Hann var af fjölmennustu þjóðinni kíkújú. Á meðan hann ríkti naut sú þjóð ýmissa forréttinda. Af því hlutust pólistískar óeirðir í landinu. Áður en Kenýa varð sjálfstætt ríki þá ríkti mikið ósætti í samfélaginu en nú eiga þau að starfa saman í einu ríki. Nú á dögum er Kenýa með friðsamlegari löndum í Afríku, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika.

Naíróbí er ein hættulegasta höfuðborg heims. Af 4,4 milljónum íbúa lifa um 60% í fátækrahverfum og atvinnuleysi er yfir 70%. Millistéttin virðist engin heldur búa langflestir við ömurleg kjör. Í fátækrahverfunum er atvinnuleysi yfir 90% og HIV tíðnin hækkar stöðugt. Á einum ferkílómetra búa um 6000 manns, skólplækir liggja milli kofaskrifla og rusl hrúgast um allt. Hér gildir frumskógarlögmálið. Hver bjargar sjálfum sér og lifað er fyrir einn dag í einu. Allt er til sölu og meðfram moldarvegum liggja sölubásar með þýfi, skemmdu grænmeti, brotnum diskum og fleiru sem enginn hefur efni á að kaupa. Vændi er líka réttlætanlegt. Afkoman gefur mat handa fjölskyldunni það kvöldið, HIV er vandamál morgundagsins.

Spillingin hefur tröllriðið þjóðfélaginu. Ríkið lofar ókeypis grunnskólamenntun en skólabúningar eru í staðinn dýrir og leiga á skólaborði kostar 2500 krónur á ári. Sólarhringur á ríkisspítalanum kostar 40.000 krónur fyrir fólk sem þénar undir 70 krónum á dag og um tveggja sólarhringa biðröð er til að leggjast inn. Vítahringur vonleysis hefur skapast í samfélaginu, hringur sem erfitt er að rjúfa.