Sjúkdómurinn malaría er oft sagður vera sjúkdómur þeirra fátæku. En ár hvert deyja yfir 600.000 manns vegna hans. 249 milljónir tilfelli greindust árið 2022 og voru yfir 95% þeirra í Afríku.
Baráttan gegn malaríu er eitt þeirra atriða sem lögð er áhersla á í Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Markmiðið er að fækka dauðsföllum um að minnsta kosti 90% fyrir árið 2030. Jafnframt að útrýma malaríu í að minnsta kosti 35 ríkjum fyrir árið 2030 og koma í veg fyrir að hún skjóti upp kollinum að nýju, þar sem henni hefur verið útrýmt.
Malaría og fátækt haldast oft í hendur og er malaría bæði orsök og afleiðing fátæktar. Hún er þrálát í fátækustu ríkjum og samfélögum jarðar, sem eru föst í vítahring örbirgðar og vanheilsu. Ótímabær dauðsföll eru þó ekki einu afleiðingar malaríu. Sjúkdómurinn hefur mikil áhrif á efnahag og hindrar þróun í Afríku.
Ný malaríudeild
Við hjá ABC barnahjálp leggjum okkar af mörkum og gerum það sem við getum til að hjálpa og nú í febrúar síðastliðnum fóru Laufey Birgisdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri ABC og Kristjana Gunnur Hlöðversdóttir, stjórnamaður ABC, til Rackoko í norður Úganda til að opna formlega malaríudeild í heilsugæslu á skólalóðinni hjá ABC Children´s Aid Uganda.
Árið 2022 fengum við styrk frá Utanríkisráðuneytinu (UTN) til að opna heilsugæslu á skólalóð ABC Úganda í Rackoko. Opnuð var kvennadeild, skurðstofa, heilsugæsla og tannlæknastofa – en nánar má lesa um það hér.
Á vormánuðum 2023 fengum við svo aftur styrk frá UTN til að aðstoða ABC Úganda við að opna malaríudeild á heilsugæslunni en við opnun hennar árið áður kom bersýnilega í ljós strax á fyrsta degi að malaría er landlæg í héraðinu og ljósmóðir sagði Laufeyju að hún væri sérstaklega skæð barnshafandi konum og gerði meðgönguna bæði erfiða og afar hættulega. Það væri draumur þorpsbúa var að hægt væri að opna malaríudeild með blóðrannsóknartækjum, ísskáp og blóðskimunartækjum.
Búið er að endurbyggja og bæta húsnæðið með nýju þaki, gólfi, allt múrað upp á nýtt og sett upp malaríudeild, sem tekur 12-14 rúm fyrir veika einstaklinga. Það er nóg fyrir svæðið, en það sem skipti langmestu máli er að vera komin með tækjakostinn til að skima blóð, rannsaka það og geta geymt í kæli.
Mikilvægt er að byggja upp heilbrigðisþjónustu á svæðinu og bæta aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu í dreifbýlinu í kringum Rackoko, í Pader héraðinu og nágrannahéruðum þess með því að draga úr nýgengi, algengi og sjúkdómsástandi og dánartíðni malaríutilfella í Rackoko.
Malaríudeildin var opnuð í október 2023 en formleg opnun var í febrúar síðastliðnum þegar Laufey og Kristjana fóru í vettvangsferð til að taka út verkefnið. Malaríudeildin hefur sannað sig frá opnun hennar sem má sjá í tölum yfir sjúklinga og lykilatriðið er mun auðveldara aðgengi samfélagsins að læknisþjónustu. Fyrsta mánuðinn frá opnun malaríudeildarinnar var nýgengi og algengi 87 tilfelli. Aukning tilfella í skráðum tilvikum var talsverð á svæðinu, sem skýrist vegna þeirra ástæðu að áður var enginn móttaka í Rackoko eða nærliggjandi þorpum og að fullorðnir kjósa frekar staðbundnar jurtir vegna fátæktar og kostnaðar við að fara á heilsugæslu og fá meðhöndlun með lyfjum .
Malaríudeildin gjörbreytir allri meðhöndlun malaríusmitaðra á svæðinu. Hingað til hefur aðstaða fyrir greiningu og meðferð verið í nærliggjandi þorpum sem eru í um 15 km fjarlægð. Vegna alvarlegri tilvika hafur þurft að sækja hjálp til bæja eins og Gulu sem er í 90 km fjarlægð og Lira sem er í 55 km fjarlægð frá þorpinu.
Þrír deyja úr malaríu í Úganda á klukkustund, þrátt fyrir að stjórnvöld gera mikið til að koma í veg fyrir malaríu er enn hægt að gera betur í baráttunni. Norður-Úganda er eitt af þeim svæðum þar sem mikið er af malaríu og í Pader héraði er mikið um dauðsföll vegna hennar.
Á heilsugæslunni eru í dag 35 sjúkrarúm fyrir almenna sjúklinga og auk þess eru 6 rúm á einangrunarsvæði og fyrir meðferð barna. Einnig er móttaka og svæði fyrir aðstandendur í móttökurými á nýju deildinni.
Við hjá ABC barnahjálp þökkum Utanríkisráðuneyti Íslands og stuðningsaðilum ABC barnahjálpar fyrir þann stuðning sem þið hafið veitt til að hægt sé að hjálpa til og veita og bæta heilbrigðisþjónustu í Rackoko í norður Úganda.