Það er óhugnanleg staðreynd að eitt af hverjum fimm ungmennum í heiminum sé hvorki í námi, starfi né starfsþjálfun. Á síðasta ári var fjöldi ungmenna (á aldrinum 15 til 24 ára) í þessari stöðu 267 milljónir og gera Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) ráð fyrir að fjöldinn verði 273 milljónir á næsta ári. Þetta er afleit þróun og til að vinna gegn henni hafa SÞ unnið markvisst að því að skapa tækifæri til menntunar og atvinnu fyrir ungt fólk.
Dagur þekkingar og kunnáttu
Dagurinn í dag, 15. júlí, er helgaður unga fólkinu og hefur World Youth Skills Day (alþjóðlegur dagur kunnáttu) verið haldinn á þessum degi síðan árið 2014. Markmiðið er fyrst og fremst að efla tækniþekkingu unga fólksins sem og á verknám og starfsþjálfun. Það er jú grundvöllur svo margs að ungt fólk hljóti menntun og öðlist þá þekkingu sem þarf til að fá vinnu og geta átt mannsæmandi líf. Auk þess sem það eflir frumkvöðlahugsun einstaklinga.
Úr örbirgð í rafmagnsverkfræði
Eitt helsta markmið ABC er að mennta fátækt ungt fólk. Það hefur bjargað heilu fjölskyldunum að börn þeirra hafi verið styrkt til náms og þann 10. júlí barst stuðningsaðilum bréf sem kemur einmitt inn á þann þátt starfsins. Það er vel við hæfi í dag á þessum alþjóðlega degi að skoða innihald bréfsins.
Bréfið er frá Robbin Marc Digab, 22. ára, sem er frá Filippseyjum. Hann er nýútskrifaður úr háskóla með BS-gráðu í rafmagnsverkfræði. Það er síður en svo sjálfgefið að ljúka háskólanámi og sérstaklega ekki fyrir þá sem alist hafa upp við svipaðar aðstæður og Robbin. Hann hefur notið stuðnings gegnum ABC frá árinu 2004 og hann segir svo frá:
„Ég fæddist inn í fátæka fjölskyldu og ólst upp í fátækt. Foreldrar mínir lögðu hart að sér til að tryggja velfarnað okkar barnanna. Faðir minn vinnur við að aka þríhjólavagni og eru launin lág. Mamma hefur unnið ýmis störf sem heilsa hennar leyfir en hún er með hryggskekkju. Ég er elstur systkinanna en ég á þrjár systur sem allar eru í námi. Líf okkar er fábrotið en við erum hamingjusöm fjölskylda. Þó svo að innkoman sé lág þá náum við samt endum saman.“
Námið og þekkingin er gjöf
Robbin lítur á námið, sem hann var styrktur til, sé ríkuleg gjöf og fyrir þá gjöf er hann ákaflega þakklátur. Og hann vill þakka fyrir sig bæði með orðum og gjörðum. Hann segir:
„Það hvetur mig til að hjálpa öðrum sem þurfa á aðstoð að halda. Þannig sýni ég þeim sem veittu mér stuðning þakklæti mitt. Ég finn að ég hef notið blessunar og án ykkar væri ég ekki neitt!“
Hann segir að stuðningurinn öll þessi ár hafi gefið honum von og að hver einasti skóladagur hafi verið dásamlegur. Hann hafi öðlast styrk, hvatningu, þekkingu og eignast vini til lífstíðar. Um stuðningsaðilana og fyrirkomulagið segir Robbin: „Þetta var fullkomin leið til að byggja mig upp fyrir lífið og ég er þakklátur fyrir leiðbeinendurna sem hafa liðsinnt mér frá því ég var barn. Ég er þakklátur fyrir þau verkefni sem hafa bætt samskipti mín við aðra. Ég er stoltur af því að hafa verið styrktur til náms,“ segir hann.
Nýr kafli í lífinu
„Nú hefst nýtt ferðalag sem felst í því að takast á við lífið sjálft og nýta það sem ég hef lært og líka að hjálpa foreldrum mínum. Vonandi get ég styrkt aðra til náms og hjálpað næstu kynslóð þeirra sem styrktir eru til náms,“ segir hinn einlægi og þakkláti Robbin sem lýkur bréfinu með eftirfarandi orðum:
„Takk aftur og ég óska þess að þið finnið hamingju í hjörtum ykkar þegar þið vitið að styrkurinn leiddi til góðs. Guð hefur blessað ykkur og þið megið vita að þið hafið veitt ungum manni innblástur til að gera góða hluti eins og þið.
Ástarkveðjur,
Robbin Marc Digap“
Höf. og þýðing: Malín Brand